Aldey Traustadóttir, nýr forseti sveitstjórnar Norðurþings, spurðist fyrir um mál háskólanemans sem tilkynnti kynferðislega áreitni starfsmanns Húsavíkurbæjar fyrir fimm árum síðan. Samkvæmt hennar upplýsingum var farið eftir öllum réttum verkferlum.

Aldey er yfirlýstur feministi og aktivisti. Hún segist lítið vita um mál háskólanemans sem kvartaði undan kynferðislegri áreitni starfsmanns Húsavíkurbæjar og hraktist í kjölfarið úr starfi. Meintur gerandi hlaut hins vegar stöðuhækkun stuttu síðar. Aldey segir að málið hafi gerst fyrir fimm árum en þá hafi hún ekki búið á Húsavík. Henni sé þó kunnugt um málið sem Mannlíf sagði frá um helgina. Hún segist hafa spurst fyrir um þetta í gær og fengið þær upplýsingar að „farið hafi verið eftir réttum verkferlum í málinu“.
Sagði hún ennfremur að ef ekki hefði verið farið eftir réttum verkferlum væri málið mjög alvarlegt enda sé „kynferðislegt áreiti mjög alvarlegt mál.“
Benti hún blaðamanni á að heyra í Kristjáni Þór Magnússyni, sveitastjóra Norðurþings, því starfsmannamál heyri undir hann en ekki sveitastjórnina. Ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að ná tali af Kristjáni Þór við vinnslu fréttarinnar.