Fyrrverandi útvarpsmaður BBC Radio 1, Michael Willis, er látinn, 79 ára að aldri. Tilkynnt var um hvarf hans í desember en mánuði síðar fannst lík hans í ánni Dart.
Michael Willis, sem einnig hafði starfað sem háskólakennari, hafði breytt nafni sínu í David Evans eftir að hafa verið leystur úr fangelsi eftir 18 mánaða dóm. Lögreglan sagði að hann hefði týnst í desember og að hann hafi síðast sést taka vatnsleigubíl [bát sem skutlar fólki gegn greiðslu] að brú þar sem snekkja hans lá við festar í Dartmouth, Devon.
Árið 2020 var Willis fangelsaður fyrir að eiga ósæmilegar myndir af börnum eftir að lögreglan réðst inn á einkasnekkju hans. Hann var tekinn með tæplega 500 viðbjóðslegar myndir í tölvubúnaði sínum. Willis, sem gekk undir sviðsnafninu Steve Merike þegar hann var plötusnúður, var útvarpsmaður á BBC Radio One á áttunda áratugnum. Hann var líka útvarpsmaður á hinni frægu sjóræningjastöð Radio Caroline og starfaði hjá Radio Trent á níunda áratugnum, þar sem hann starfaði með sjónvarpsmanninum Dale Winton heitnum.
Breska Landhelgisgæslan og RNLI (Royal National Lifeboat Institution) leituðu að Willis í Dart ánni er hann hvarf en án árangurs. Hins vegar fannst lík hans þann 20. janúar, hálfa mílu niður ána. Dánardómstjórinn gaf síðar upp nafnið David Evans, 79 ára, án þess að geta til um fyrri auðkenni hans, samkvæmt Sun.
Dánardómstjóri Devon-svæðisins, Alison Longhorn, sagði: „Aðstæðurnar eru þær að David bjó í bátnum sem lá við festar í ánni Dart. Hvarf hans var tilkynnt til lögreglu þar sem hann hafði ekki sést í nokkra daga. Lík fannst neðar í ánni nokkrum vikum síðar. Engar grunsamlegar aðstæður eru fyrir hendi. Dánarorsök er ókunn.“
Mirror reyndi að hafa samband við fyrrverandi eiginkonu hans, Juliu en núverandi eiginmaður hennar svaraði fréttinni um lát Willis stutt og laggott: „Gott.“
Hlaut skilorðsbundinn dóm
Willis fékk skilorðsbundinn dóm í Leicester Crown Court árið 2015. Hann flutti til Plymouth, þar sem hann bjó á bát sínum Appalachian Spring í Plymouth Yacht Haven. Willis neitaði því að eiga 238 ósæmilegar myndir í A-flokki af börnum á tölvum sínum – sem sýna þau verða fyrir kynferðisofbeldi af hendi fullorðnum.
Hann neitaði einnig að eiga 226 myndir í B-flokki. Willis játaði sig sekan um að hafa aðeins 10 myndir í vægasta flokkinum, C-flokki, á minnislykli. Lögreglan réðst inn á snekkju hans aftur í ágúst 2017. Hann fór í vitnisstúkuna til að lýsa því yfir að sér fyndist sumar af alvarlegri myndunum „algjörlega ógeðslegar“.
En kviðdómurinn frétti að hann hefði líka verið tekinn með myndir í flokki A þegar hann var handtekinn í Loughborough árið 2013. Willis viðurkenndi að hann notaði hugbúnað til að deila skrám og til að finna ósæmilegar myndir. En hann hélt því fram að hann hefði ekki hugmynd um hvernig alvarlegri myndirnar birtust á fartölvu hans, borðtölvu og minnislykli.
Kviðdómur vísaði fljótt frásögn hans á bug og fann hann sekan með samhljóða dómum eftir tveggja daga réttarhöld. Willis játaði í Leicester árið 2015 að hafa verið sekur um níu ákærur fyrir að hafa hlaðið niður ósæmilegum myndum og kvikmyndum af börnum á árunum 2006 til 2013. Hann hafði sagt lögreglu í viðtali að hann hefði verið „forvitinn vegna Jimmy Savile-málsins“ og vildi koma niðurstöðum sínum á framfæri við félagsfræðing.
Hann átti myndirnar á meðan hann var frambjóðandi frjálslyndra demókrata til þings fyrir Loughborough í almennum kosningum 2010, þar sem hann fékk nærri 10.000 atkvæði en tapaði fyrir verðandi menntamálaráðherra breska íhaldsflokksins, Nicky Morgan. Willis hélt einnig fyrirlestra í 15 ár við New College Nottingham og Nottingham Trent auk þess að vera forstöðumaður (e. school governor) við fjölda skóla í Midlands-svæðinu. Hann tók einnig þátt í ýmsum ráðum í Leicester-skíri.