Fimm ungir skátar frá Akureyri lögðu af stað í leiðangur í Eyjafirði annan í jólum 1980. Aðeins þrír þeirra komu lifandi úr ferðinni.
Fimm manna skátahópur lentu í skelfilegu óveðri, sem enginn hafði búist við, þegar þeir tjölduðu í Finnastaðadal annan í jólum 1980. Í óveðrinu fauk ofan af þeim annað tjald þeirra af tveimur. Ákváðu þeir því að ganga til byggða. Einn þeirra náði að lokum að bóndabæ og gat látið vita af raunum þeirra. Strax var kallaður út mannskapur til að leita að hinum fjórum drengjunum en einn þeirra fannst látinn, kominn niður af fjallinu en hinir fundust grafnir í snjó. Var einn þeirra látinn.
Hér má lesa hina sorglegu frétt Dagblaðsins um málið:
Eyjafjörður
TVEIR UNGIR SKÁTAR FÓRUST Í ÓVEÐRINU
– á leið til byggða úr útilegu eftir að tjald þeirra fauk ofan af þeim
Tveir unglingar urðu úti í Eyjafirði í gærmorgun. Voru þeir úr 5 manna skátaleiðangri sem lagt hafði upp í Finnastaðadal á annan í jólum. Á sunnudagsnóttina skall á mikið óveður og fauk þá ofan af piltunum annað af tveim tjöldum þeirra. Lögðu þeir því af stað til byggða. Um klukkan sjö í gærmorgun komst einn þeirra að bænum Holtsseli sem er næsti bær við Grund. Lét hann vita af félögum sínum og var þegar kallaður út mannskapur til leitar. Um 50 manns úr Hjálparsveit skáta, Flugbjörgunarsveitinni og frá lögreglunni leituðu piltanna. Einn þeirra fannst látinn, kominn niður af fjallinu. Hinir þrír fundust upp undir fjallsbrún, grafnir í fönn. Tveir þeirra voru lífs en einn látinn.
Þeir sem lífs voru voru fluttir á sjúkrahús og voru í gærdag taldir úr lífshættu. Sá er komst að Holtsseli var hins vegar, að því er virtist, alheill. Piltarnir sem létust voru
Ferdinand Guðmundsson og Þorgeir Rúnar Finnsson, 15 og 16 ára. Elzti maðurinn í leiðangrinum var tvítugur. Þetta var hópur sem alvanur var fjallaferðum og vel út búinn en veðrið sem yfir skall var meira en nokkur átti von á. Tafði veðrið mjög alla leit.
Morgunblaðið nafngreindi þá drengi sem lifðu hinar hræðilegu raunir af en það voru þeir Ármann Ingólfsson, 16 ára, Hreinn Skagfjörð Pálsson, 20 ára, og Jón Vídalín Ólafsson, 15 ára.
Hér má lesa nánari lýsingar á atburðinum sem fram kom í frétt Morgunblaðsins:
Á annan dag jóla komust þeir á áfangastað ofarlega í norðurhlíð Finnastaðadals, slógu þar upp tveimur jöklatjöldum og bjuggust um undir nóttina. Seint um kvöldið skall svo skyndilega á mikið ofviðri af suðri, en í þeirri átt verður oft gjörófært veður á þessum slóðum. Um miðnætti rifnaði annað tjaldið og fauk og við það slóst tjaldsúla í höfuðið á Ármanni svo að hann fékk miklar blóðnasir.
Nú var úr vöndu að ráða, en þó afréðu piltarnir að láta fyrir berast það sem eftir var nætur i tjaldstað. í birtingu ákváðu þeir síðan að freista þess að brjótast yfir skarðið og komast í skálann Lamba, því þá höfðu þeir veðrið í bakið, en brátt sáu þeir að það var vonlaust. Þeir sneru því við og komust niður í hlíð Finnastaðadals eftir mikla hrakninga í veðurofsanum. Þar reyndu þeir að gera sér snjóbyrgi og láta skefla yfir sig, en voru þá orðnir máttfarnir af þreytu og vosbúð og sumir blautir í fætur. Til dæmis gekk þeim illa að opna bakpoka sína og ná þar í álpoka og annan búnað, sem þeir höfðu meðferðis. Ekki er alveg ljóst hvað næst gerðist, en eftir því sem næst verður komist reyndu þeir Hreinn og Freysteinn að ná til byggða síðdegis á laugardag, þriðja jóladag. Þeir komust langleiðina, en urðu þó frá að hverfa vegna fárviðrisins og sneru til félaga sinna aftur. Síðla nætur rofaði svolítið til svo að þeir sáu ljós á bænum Finnastöðum í Hrafnagilshreppi. Þá ákváðu þeir Hreinn og Freysteinn aftur að reyna að ná þangað og sækja hjálp, því að hinir þrír voru þá orðnir mjög þrekaðir. Þeir héldu niður að ánni og þræddu árgilið niður dalinn. Þeir töluðu saman eða kölluðust á meirihluta leiðarinnar, en allt í einu gafst Freysteinn upp og ansaði ekki lengur þó að Hreinn talaði til hans. Hreinn hlynnti að félaga sínum og bjó um hann sem bezt hann gat, en hélt svo áfram til bæja. Þá hafði orðið rafmagnslaust í sveitinni svo að nú sá hann ekki lengur ljósin á Finnastöðum. Hann villtist því framhjá bænum og náði fyrst byggð í Holtsseli, sem er nokkru norðar og austar. Þá var klukkan langt gengin 7 á sunnudagsmorgun.