Hamas neita með öllu ásökunum Ísraela um að hafa myrt ungu Shiri Bibas og unga syni hennar.
Hamas hefur lengi sagt að ísraelsk loftárás hafi drepið Shiri Bibas og ungbörn hennar, Kfir og Ariel, snemma í stríðinu. Vígamenn Hamas rændu fjölskyldunni í hinni hræðilegu árás samtakanna inn í Ísrael 7. október 2023.
„Fölsku ásakanirnar sem glæpamenn [ísraelska] hernámsins eru að dreifa um dauða Bibas-barnanna af hendi ræningja þeirra eru aðeins tilhæfulausar lygar og uppspuni,“ sagði Hazem Qassem, talsmaður Hamas, í yfirlýsingu.
Ísraelski herinn sagði að bardagamenn Hamas hafi myrt börnin „með berum höndum“ vikum eftir að þeim var rænt 7. október 2023.
Ismail al-Thawabta, forstöðumaður fjölmiðlaskrifstofu Hamas-stjórnarinnar á Gaza, sagði að forsætisráðherrann Netanyahu beri „fulla ábyrgð á því að myrða hana og börn hennar“.
Tilbúin að láta af völdum
Basem Naim, embættismaður Hamas og fyrrum heilbrigðisráðherra, segir í samtali við Al Jazeera, Hamas-samtökin á Gaza vera reiðubúin að láta af völdum á Gaza og fagna tillögu Egypta um uppbyggingu á Gaza sem ekki fælu í sér brottflutning Palestínumanna.
Tillaga Egypta snýr að því að óháð nefnd verði stofnuð sem myndi fara með stjórn Gaza og annast skipulagningu á uppbyggingu á svæðinu, í samvinnu við nágrannaríkin, án aðkomu Hamas.
Sagði Naim að samtökin væru tilbúin að sleppa stjórnartaumunum undir eins yrði slík nefnd stofnuð, eða önnur stjórnvöld ákveðin af Palestínumönnum sjálfum.
Sagði hann að Hamas hefðu verið stofnuð sem andspyrnuhreyfing gegn hernámi Ísraela og í þeim tilgangi að ná fram sjálfræði og sjálfstæði Palestínumanna.