Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og nú ferðaþjónustubóndi, er þekkt fyrir að vera með munninn fyrir neðan nefið; er með ákveðnar skoðanir og lætur engan valta yfir sig, hvorki fyrr né síðar. Og hún er öskureið yfir meðferð íslenskra stjórnvalda á útlendingum og hælisleitendum og tjáir sig á mannamáli eins og henni er einni lagið:
„Hann heitir Hemn; er frá Kúrdistan og er vinur minn,” segir Margrét Gauja og bætir við:
„Það á að henda honum úr landi í næstu viku. Hemn er hámenntaður og talar reiprennandi ensku,“ segir hún og veltir því fyrir sér hvernig íslensk stjórnvöld koma fram við útlendinga og hælisleitendur hér á landi; hvernig við virðum lítið menntun þeirra og réttindi – og síðast en ekki síst það hvernig Útlendingastofnun kemur fram við áðurnefnt fólk, en þar á bæ virðist í það minnsta ekki ríkja mikill mannkærleikur, svo ekki sé dýpra í árina tekið.


Margrét Gauja nefnir að jafnhliða því sem útlendingum og hælisleitendum er hent miskunnarlaust úr landi – oftast með líkamlegu ofbeldi; handafli – og í mörgum tilvikum beint á götuna í heimalandi þeirra og jafnvel út í opinn dauðann – þá er staðan sú á Íslandi í dag sú „að á sama tíma öskrar ferðaþjónustan á starfsfólk.“
Og varðandi annað mál af svipuðum toga vandar Margrét Gauja Útlendingastofnun ekki kveðjurnar:

„Við komuna til Grikklands fá þau afhent tjald og vonandi komast þau yfir pappakassa til að nota sem dýnur“ segir ákveðni mannvinurinn og baráttukonan Margrét Gauja og endar færslu sína á þessum orðum hér að neðan og vísar í þessa grein, og er hvergi nærri hætt baráttu sinni:
„ÉG.HATA.ÚTLENDINGASTOFNUN!“