Fimmtudagur 20. mars, 2025
4.8 C
Reykjavik

Eftir meðferðina hóf Sævar líf sem karlmaður: „Það var pissað á rúmið mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég byrjaði í neyslu um 15 ára aldurinn og drakk strax mjög illa. Ég var ekkert að sötra bjór, fór strax í Vodkað. Fyrsta minningin mín af hugbreytandi efnum er þegar ég var handtekinn í fyrsta skipti, ofurölvi og kom fram í fréttum og allt,” segir Sævar Torfason sem hefur vakið gríðarlega athygi á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann deilir hreinskilnislega sögu sinni sem fíkill og transmaður.

„Ég man eftir að hafa verið á lögreglustöðinni og hafa orðið í í fyrsta skipti vitni að lögregluofbeldi. Þarna var strákur sem ég kannaðist við og það voru fimm lögreglumenn á honum, þar af tveir með skildi og hentu honum inn í klefa og bombuðu hann handjárnaðan niður”.

Var ekki húsum hæfur

Sævar er glæsilegur tæplega 25 ára ungur maður. Við hittumst í húsnæði 12 spora samtaka sem eru honum augljóslega kær. „Ég sat einmitt í þessum sama stól þegar ég kom út. Ég held samt að það hafi ekki komið mörgum á óvart,“ segir hann og hlær.

Sævar upplifði sig aldrei sem stúlku.

Sævar segist hafa verið erfitt barn.

„Ég var rosalega óþekkur, byrjaði ungur klifa upp á þök og stela úr búðum. Ég var síðan greindur með ADHD um fimm ára aldurinn og settur á lyf. Annars man ég takmarkað eftir æsku minni. Ég man reyndar áföllin en síður góðu stundirnar. Neyslan er búin að skaða mig mikið, minnið á mér er til dæmis í algjöru fokki og einbeitining er lítil.  Ég er reyndar með helling af greiningum, til dæmis ofsakvíða, þunglyndi  og fíknisjúkdóm. Ég er með marga galla en ég hef lært að vinna með þeim”.

- Auglýsing -

Sævar var reglulega á stuðningsheimilum og sendur á BUGL þegar hann var 10 ára. „Foreldrar mínir reyndu það sem þau gátu en ég var ekki húsum hæfur. Ég flutti frá móður minni og til föður míns 12 ára og var sendur á Stuðla þegar ég var 14 ára”.

Æskuárin voru Sævari erfið.

Sævar verður dapur þegar hann rifjar upp vistina á Stuðlum.

„Þetta er ein af mínum verstu lífsreynslum og ég get enn ekki ekið þarna framhjá án þess að hjartað fari á fullt. Ég passaði ekki inn í hópinn og það var til dæmis pissað á rúmið mitt. Krakkarnir þarna voru að koma inn út af neyslu en ég var að koma inn út af hegðunarvanda, ég var ekki einu sinni byrjaður að reykja sígarettur. Þarna byrjaði meðferðarbröltið”.

- Auglýsing -

Leið sífellt verr

Þessi ár voru mikil mótunarár  fyrir Sævar.

„Þarna er kynþroskinn að byrja og allt sem því fylgir, blæðingar og brjóst og mér leið sífellt verr. Ég byrjaði að setja upp grímur. Ég týndi mér á þessum árum því allt líf mitt var leikrit. Ég var alltaf að reyna að fitta inn, þóknast þessum og hinum svo ég vissi ekki lengur hver ég var. Þannig liður mörg ár Ég vissi ekki hvað trans var fyrr en 2015 þegar ég var á Vogi og hitti þar transstrák sem líka var í meðferð. Þá komst ég loksins að því hver ég var“.

Sævar er búinn að vera edrú í 11 mánuði og 19 daga. Hann er að fara í nám í Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu og stefnir síðan á matreiðslubraut í MK. „Mér finnst ofsalega gaman að elda. Reyndar langaði mig alltaf í lögguna en með mína reynslu af undirheimunum er ég ekki viss”.

Slengdi í smettið á þeim

Hann hefur deilt vegferð sinni sem transmaður hreinskilnislega á TikTok og er óhræddur við að svara öllum þeim spurningum sem að honum beinast.

Sævar sem barn.

„Það eru margir sem vilja ekki láta aðra vita að þeir séu trans, bæði út af fordómum og svo kemur það í raun engum við hvað fólk er með á milli lappanna. Þegar ég kom út árið 2015 sendi ég bréf til systur minnar og pabba sem vissu ekki hvað trans var. Ég slengdi þessu bara í smettið á þeim!  Ég var eigingjarn og veit í dag að þótt ég sé sá sem er í hormónagjöfinni og aðgerðunum, þá er öll fjölskyldan að ganga í gegnum þetta”.

Eftir meðferðina fór Sævar heim og hóf líf sem karlmaður.

„Það var erfitt, ég vissi takmarkað um þetta eða hvað ég var að koma mér út í nema ég var alveg viss um að þetta væri rétt ákvörðun. Ég hef aldrei litið tilbaka eða efast um sjálfan mig um eina sekúndu. Ég grét til dæmis á sjúkrahótelinu þegar brjóstin voru fjarlægð, ég fann fyrir svo miklu frelsi. Öll þessi ár sem ég var þunglyndur og leið illa, ég sá bara heiminn í allt öðru ljósi þegar ég kom út”.

Pjúra kjaftæði

Árið 2018 hófst ferlið formlega hjá Sævari. Hann hefur látið fjarlægja brjóst og er að jafna sig eftir legnám. Með tímanum hyggur hann á aðgerð á kynfærum.

„Ég hef verið heppinn og komist hratt í gegnum þetta. Ég fór í tvo tíma til geðlæknis og var síðan í hálft ár hjá sálfræðingi í transteyminu. Þetta er meira mál en margir halda.”

Helsti stuðningsaðili Sævars í gegnum ferlið er systir hans.

„Ég og systir mín eru mjög náin í dag, enn nánari en við vorum áður. Ég á bréf frá henni sem hún skrifaði mér 2018 og ég táraðist”.

Augu Sævars fyllast af tárum.

„Ég tárast enn þann dag í dag því með þessu bréfi var hún að samþykkja mig og um áramótin sagði hún í fyrsta skipti gleðilegt ár, bróðir minn. Við ólumst upp í kristinni trú svo þetta er að fara gegn hennar trúarskoðunum en hún styður fyrst og fremst bróður sinn”.

Sævar í sama stól í 12 sporahúsi og hann sat í þegar hann kom út.

Með færslum sínum á TikTok er Sævar að koma tvennu til skila: Að fá unga fólkið til að skilja trans auk þess að fræða þau um hættur fíkniefnaneyslu. „Ég var í öllu og fór sífellt lengra. Margir þessara krakka segja til dæmis grasið skaðlaust en það er pjúra kjaftæði. Ég fór í grasið eftir áfengið en það var ekki nóg, ég þurfti sífellt að fara lengra. Þessir krakkar vita ekkert hvað þeir eru að koma sér út í. Ég á marga vini sem eru skemmdir í dag út af grasinu og hef misst annað eins af vinum.“

Einn góðan veðurdag fékk Sævar nóg. „Ég gat ekki meira og tókst að verða edrú án hjálpar. Það var ógeðslega erfitt en ég var búinn á því, gat ekki lengur óheiðarleikann og leikaraskapinn. Lífið fer framhjá þér í neyslu. Þetta var alltaf sami vítahringurinn, geðrof, paranoja og feluleikur“.

Sama um álit annarra

„Eftir af hafa farið í 12 sporasamtök og fengið mikla ráðgjöf gat ég farið að tjá mig og gerði það á TikTok. Það var erfitt og óþægilegt að opna sig í byrjun en í dag er ég óhræddur við það. Áður var ég rosalega háður áliti annarra á mér en í dag er mér alveg sama“.

Sævar segist í dag vera glaður og frjáls.

„Ég er líka nægjusamur. Nægjusemi er sterkt orð. Ég bý með hópi fólks á áfangaheimili, er öryrki og öll mín fjölskylda er á Akureyri. Ég á ekki mikið af peningum en ég sáttur við mig eins og ég er í dag og reyni alltaf að gera betur en í gær. Ég er hamingjusamur,“ segir Sævar Torfason.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -