- Auglýsing -
Neytendavakt Mannlífs tók saman nokkur sparnaðarráð á tímum heimsfaraldrar. Við höfum heyrt sumt áður en erum misgóð að tileinka okkur listina að spara. Við höfum verið harkalega minnt á að allt getur gerst í lífinu og þá getur hjálpað að eiga varasjóð. Svo má ekki gleyma því að það að spara, helst gjarnan í hendur við umhverfisvænni lífshætti.
- Fylgstu vel með í hvað peningarnir fara. Prófaðu að safna kvittunum í eina til tvær viku og farðu svo yfir þær með gagnrýnum huga. Það er pottþétt eitthvað þarna sem má missa sín.
- „Vantar mig þetta? Í alvöru?“ Þetta þarfnast ekki nánari útskýringar.
- Leggðu til hliðar. Ef það er mjög hart í ári tekurðu að sjálfssögðu tillit til þess en mundu bara að margt smátt gerir eitt stórt. Fyrir þá sem geta er mjög góð regla að láta 10 – 20% af laununum fara beint inn á sparnaðarreikning.
- Farðu reglulega yfir tryggingarpakkann, símaáskriftina og afþreyingarpakkana. Þetta er drjúg músarhola.
- Keyptu notuð föt. Barnaloppann í Skeifunni og Extraloppann í Smáralind hafa slegið í gegn. Þar er oft hægt að finna mjög skæslegan fatnað á hlægilegu verði. Fatahringrás er bæði frábær leið til að spara og mjög umhverfisvæn.
- Fylgstu vel með tilboðum – þeim rignir yfir! Skoðaðu þau samt með gagnrýnum huga. Sum tilboð eru aðeins sett fram til að blekkja.
- Gerðu innkaupalista fyrir vikuna og farðu í búð í mesta lagi einu sinni í viku. Markmiðið ætti að vera að tæma ískápinn reglulega og djúphreinsa hann áður en farið er út í búð. Eldamennskan verður meira skapandi, þú minnkar matarsóun – og sparar!
- Leggðu bílnum og notaðu strætó. Sérstaklega ef þú ert með börn því þau elska strætó og þurfa að læra að nota hann. Svo er ekkert mál að hjóla allan ársins hring. Þetta er bara spurning um að koma sér af stað.
- Taktu til í geymslunni og reyndu að koma einhverju í verð, það eru allskonar sölusíður þarna úti.
- Skráðu þig á netnámskeið og lærðu eitthvað nýtt. Þú gætir ýmist lært eitthvað sem gæti aflað þér auka tekna eða lært eitthvað sem þú gætir hætt að borga fyrir t.d. bókhaldsþjónustu, grafíska hönnun eða rafræna markaðssetningu. Nóg er framboðið.