Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti á þriðjudag þá ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka að sekta Arion banka um 87,7 milljónir króna. Um er að ræða stjórnvaldssekt sem var lögð á bankann í júlí 2020, fyrir að upplýsa ekki eins fljótt og kostur var um fyrirhugaðar hópuppsagnir hjá bankanum í september árið 2019.
Aðdragandi málsins er sá að Mannlíf birti frétt þar sem sagt var frá því að hópuppsagnir væru á dagskrá hjá bankanum. Í fréttinni sagði að uppsagnirnar væru liður í yfirlýstri stefnu nýráðins bankastjóra Arion banka um að auka arðsemi bankans. Frétt Mannlífs var birt 22. september 2019, á sunnudegi, en á miðvikudegi birtist tilkynning forsvarsmanna bankans þar sem fréttin var sögð röng.
Þann 26. september, fjórum dögum eftir að frétt Mannlífs birtist, var sagt frá því að 100 starfsmönnum Arion banka hefði verið sagt upp. „Með þeim skipulagsbreytingum sem við kynnum í dag erum við að bregðast við aðstæðum til að tryggja að bankinn þjóni sínum viðskiptavinum vel á sama tíma og hann skilar hluthöfum arði,“ sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka um uppsagnirnar.
Fjármálaeftirlitið taldi að um væri að ræða innherjaupplýsingar sem gætu haft áhrif á verðmæti bankans.
Sögðu fréttina ónákvæma
Stjórnendur Arion banka mótmæltu sektinni og vildu meina að fjármálaeftirlitið hefði hvorki gætt jafnræðis né meðalhófs í ákvörðun sinni. Máli sínu til stuðnings vísuðu þeir til fyrri ákvarðana fjármálaeftirlitsins um mun lægri sektir. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur samþykkti ekki mótmæli bankamannanna. Önnur málsvörn forsvarsmanna bankans var sú að ekki hefði verið rétt hjá fjármálaeftirlitinu að brot bankans hefði staðið yfir í fjóra sólarhringa. Það hefði hins vegar aðeins liðið þrír og hálfur sólarhringur frá birtingu fréttarinnar þar til bankinn tilkynnti opinberlega um uppsagnirnar. Þetta taldi dómarinn engu máli skipta.
Forsvarsmenn bankans sögðu að frétt Mannlífs hefði verið það ónákvæm að upplýsingarnar gætu ekki hafa komið innan úr bankanum og þar með bæri þeim engin skylda til þess að birta innherjaupplýsingar um hópuppsagnirnar. Eins og áður segir kom fram í fréttinni að allt að 80 manns yrði sagt upp en að endingu var um 100 starfsmenn að ræða.
Um raunverulegar upplýsingar að ræða
Dómari héraðsdóms telur fréttina sannarlega hafa innihaldið upplýsingar sem í meginatriðum voru þær sömu og höfðu komið fram á fundi innan bankans. Bankinn gæti ekki skýlt sér á bak við það að sá fjöldi sem tilgreindur hafi verið í fréttinni hafi ekki verið nákvæmlega sá sami og var sagt upp nokkrum dögum síðar. Ekki heldur að í fréttinni hefði ekki verið tilgreind samsetning þeirra starfsmanna sem segja átti upp.
Dómurinn kveður á um að sú ákvörðun Arion banka að fresta birtingu þessara innherjaupplýsinga í þennan tíma hafi verið í andstæðu við lög. Tilkynningarskylda bankans hafi verið virk um leið og upplýsingarnar birtust í fréttinni þann 22. september.
„Aðalatriðið er að um raunverulegar upplýsingar var að ræða sem skiptu máli fyrir markaðinn en ekki upplýsingar byggðar á ónákvæmum getgátum vefmiðilsins,“ segir meðal annars í dómnum.