Guðmundur Felix Grétarsson deildi fallegri mynd af sér og konu sinni, Sylwiu, þar sem hann heldur utan um hana. Með skrifar hann: „Holding my Sylwia like a „normal“ person.“
En eins og flestir líklegast vita voru græddir á Guðmund nýir handleggir þann 14. janúar síðastliðinn, eftir að hann missti þá báða í hræðilegu slysi árið 1998, þá 26 ára gamall.

Sjá einnig: Guðmundur Felix með frábærar fréttir: „Ég get hreyft þennan skratta“
„Ég vann sem rafveituvirki hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og var að vinna við háspennulínu rétt utan við borgarmörkin. Röð af atvikum og misskilningi verður til þess að ég fer upp í ranga línu og í raun og veru brenni af mér hendurnar,“ sagði Guðmundur í viðtali við Stöð 2 fyrir nokkrum árum síðan.
Var það í raun kraftaverk að Guðmundur skyldi lifa slysið af, en hann fékk í sig ellefu þúsund volt og var haldið sofandi í sjö vikur.
Sjá einnig: Guðmundur Felix vill sjá gosið og safna hrauni um jólin: „Verð farinn að heilsa með handabandi“
Nú rúmlega tuttugu árum síðar er Guðmundur kominn með handleggi og hafa framfarir hans farið langt fram úr björtustu vonum.