Patrekur Jaime raunveruleikastjarna Íslands segist hafa upplifað fordóma þegar hann var yngri. Patrekur er 21 árs gamall og ættaður að norðan. Hann var gestur vikunnar í viðtalsþættinum Einkalífið.
Patrekur ber tvö erlend nöfn og var aðeins dekkri en flestir í skólanum sínum og fann fyrir fordómum gagnvart því. „Svo hef ég alltaf verið mjög kvenlegur og maður fann alveg fyrir því. Fótboltastrákarnir á Akureyri hata mig, en ég hata þá alveg líka,“ segir Patrekur.
Aðspurður hvernig það hafi verið að alast upp á Akureyri segir hann: „Það er erfitt að líða ógeðslega vel á Akureyri nema þú sért skilurðu fótboltastrákur eða fimleikastelpa með ríka foreldra.“
Patrekur varð fyrir stríðni í grunnskóla, en vill ekki taka svo djúpt í árinni að segjast hafa orðið fyrir einelti. Hann segir að það hafi komið tímabil þar sem honum leið afar illa og var hann hjá sálfræðingi frá 7. bekk og þar til hann kláraði grunnskólann. Hann segist þó sjálfur hafa strítt mikið og alls ekki hafa verið besta barnið.
Patrekur var í Glerárskóla þar sem hann segir að stympingar hafi verið algengar: „Glerárskóli hann er alveg smá gettó, þar var alveg verið að berja hvort annað og það var ekkert big deal“
Patrekur er ekki þekktur fyrir það að sitja á skoðunum sínum. En hvað finnst honum um að heyra skoðanir fólks á sér? „Ég skil alveg að það fíla mig ekki allir … að fara yfir kommentakerfið og sjá einhvern drulla yfir þig, svo ýtirðu á prófílinn þeirra og þetta er bara einhver, sorrý, ljót manneskja … þá er maður bara æ hvað ert þú að segja?“
Ásamt því að vera aðal stjarnan í raunveruleikaþáttunum Æði, er Patrekur virkur á samfélagsmiðlum. Á Instagram er hann með 11.000 fylgjendur, en þar er hann duglegur að deila myndum af lífi sínu.