Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, varaformaður Ungra jafnaðarmanna og fyrrverandi ritari Samfylkingarinnar, segir lögreglunni til syndanna á Twitter. Hann segir lögregluna tala alltof óvarlega um atvik sem varðaði 15 ára stúlku.
Í dagbók lögreglu kom fram að hún hafi þurft að beita 15 ára stúlku valdi í Breiðholti í gærkvöldi þar sem hún hafi verið ölvuð og látið ófriðlega. Atvikinu er lýst nokkuð svo að hún hafi fyrst neitað að segja til nafns og því næst kastað stól í átt að lögreglumönnum.
Hún hafi því verið færð í „lögreglutök“ en að lokum sleppt í hendur móður sinnar. Óskar Steinn telur lögregluna gera of mikið mál úr þessu í dagbók sinni. „Hvaða erindi á þetta við almenning? Af hverju þarf að lýsa afskiptum af barni með svo nákvæmum hætti? Til að krakkarnir í hverfinu fái eitthvað til að slúðra um? Í alvöru lögreglan, hættið þessu,“ skrifar hann og bætir við:
„Það þarf ekki mikið til að allt hverfið frétti hver stúlkan og móðir hennar eru og nú hafið þið gefið út nákvæma frásögn af bæði atburðarrásinni og ástandi stúlkunnar. Þetta getur gert mjög erfiða stöðu þeirra miklu verri. Skammist ykkar að birta svona.“
Lögreglan svarar honum og segir: „Sitt sýnist hverjum – það er mikil eftirspurn frá almenningi og öðrum að fá upplýsingar um verkefni okkar – þarna er persónuverndar gætt og ekkert sem sýnir hver stúlkan er.“
Elísabet nokkur spyr hvort stúlkan fái áfallahjálp þar áfallastreita fylgi oft að vera beittur valdi. Því svarar lögreglan: „Nú bara vitum við það ekki. En barnaverndaryfirvöldum er gert viðvart og vonandi fær hún aðstoð.“