Lilja Rut Þórarinsdóttir, íbúi í Langholtshverfinu, lýsir hrottafenginni árás á 16 ára gamla dóttur sína og 18 ára gamlan kærasta hennar í gærkvöldi. Þar hafi tveir árásarmenn grímuklæddir ráðist inn í bíl þeirra vopnaðir hnífum þar sem kærastinn var laminn og ógnað með hníf upp að hálsi.
Þessu lýsir Lilja í hverfishópi íbúa á Facebook. Hún segir að öllu því sem hægt var að stela hafi verið stolið úr bílnum, meira að segja fötum og skóm sem kærastinn var klæddur í. „Núna í kvöld milli klukkan 20-20:30 lentu dóttir mín og kærastinn hennar í hræðilegu atviki þar sem þau sitja inn í bíl í Sólheimum á móts við Langholtskirkju þegar ráðist er inn í bílinn þeirra af tveimur mönnum. Hún nær að hlaupa í burtu en því miður var kærastinn barinn og ógnað með hníf upp að hálsinum og öllu sem hægt var að stela var stolið úr bílnum ásamt fötum og skóm sem drengurinn var klæddur í,“ segir Lilja og óskar eftir aðstoð netverja varðandi upplýsingagjöf til lögreglu.
„Innilegar þakkir til þeirra sem hleyptu honum inn til að hringja á lögregluna og lánuðu honum jakka utan yfir sig. Lögreglan rannsakar þetta sem alvarlega líkamsárás með vopni. Ef einhver varð vitni af þessari árás og getur gefið upplýsingar vinsamlegast hafið samband við lögregluna.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur formlega lýst eftir árásarmönnunum tveimur sem voru grímuklæddir við árásina. „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja manna vegna rannsóknar hennar á ráni í Sólheimum við Langholtskirkju á níunda tímanum í gærkvöld, en tilkynning um málið barst kl. 20.20. Tveir, grímukæddir menn komu að bifreið sem þarna var og bæði ógnuðu fólkinu sem í henni var með eggvopni og slógu til ökumannsins sem hlaut áverka af. Síðan rændu þeir nokkru af munum úr bifreiðinni. Þeir sem búa yfir vitneskju um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið [email protected] eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Undir færslu Lilja stóð ekki á viðbrögðu annarra íbúa sem eru skiljanlega óttaslegnir eftir atvikið. Ingibjörg Reynisdóttir er meðal þeirra. „Þetta er hreint út sagt hryllilegt. Manni er verulega brugðið við að lesa þetta. Vona að þau fái góð hjálp við að komast yfir þetta áfall, segir Ingibjörg.
Sigrún Ósk nokkur er hjartanlega sammála. „Guð minn góður, þetta er hræðilegt. Eins og hvað manni þykir vænt um hverfið og það sé svo save, þá er það því miður ekki. Eins sorglegt og það er. Vonandi ná þau sér og þið fáið allt aftur,“ segir Sigrún.
Helga Kristín Friðjónsdóttir, einn íbúa hverfisins, veltir upp spurningunni um nágrannavörslu. „Skelfilegt. Verðum við ekki að virkja nagrannavörslu og vera sýnileg í hverfinu? Er eitthvað slíkt til í samstarfi við lögreglu? Mjög óhuggulegt og sorglegt. Innilegar kvedjur til parsins,“ segir Helga.