Samkvæmt heimildum enska fjölmiðilsins Daily Star eru – eins og stendur – fyrrum liðsfélagar Gylfa Sigurðssonar afar óánægðir með stöðu mála í kjölfar frétta um Gylfa, sem grunaður er um ósæmilegt athæfi gagnvart ólögráða stúlku. Ekkert hefur þó verið sannað í málinu og Gylfi liggur undir grun; hefur ekki verið sakfelldur fyrir eitt né neitt, nema af dómstóli götunnar.
Daily Star heldur því blákalt fram að liðsfélagar Gylfa vilji að hulunni sé svipt af nafni hans í fjölmiðlum á Bretlandseyjum, en hér á landi var mbl.is fyrst til að birta nafn Gylfa opinberlega þótt málið sé enn til rannsóknar, og Gylfi saklaus uns sekt sannast, ef það gerist á annað borð.
Breskir fjölmiðlar hafa þó ekki gengið eins langt og mbl.is gerði fyrstur miðla í heiminum, að nafngreina grunaðan mann, en þó er það ekki af einhverjum mannúðarástæðum; fyrst og síðast er ástæðan af lagalegum toga.
Engu að síður eru leikmenn Everton „virkilega æstir og þeir eru mjög óánægðir með að hafa sogast inn í mál Gylfa sem er til rannsóknar“ hefur Daily Star eftir heimildarmanni sínum, sem bætir við að „reyndustu leikmenn félagsins hafa fengið mörg símtöl á öllum tímum sólarhringsins frá, til að mynda, öðrum leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar; allir vilja vita meira og halda virkilega að liðsfélagar Gylfa lumi á fréttum um málið og séu tilbúnir að deila upplýsingum um þetta sorglega og viðkvæma mál, sem leikmenn Everton eru svo sannarlega ekki að fara að gera, enda vita þeir ekki meira um málið en almenningur.“
Fabian Delph leikmaður Everton hefur farið hvað verst út úr þessu máli, en sú saga fór á flakk í netheimum að hann væri sá leikmaður sem handtekinn var vegna gruns um barnaníð.
Í lokin nefnir síðan Daily Star eftir heimildarmanni sínum „að einn leikmaður Everton hafi verið fokvondur eftir að hafa fengið fimm símhringingar frá Gylfa, en símhringingarnar áttu sér stað eftir að forráðamenn Everton skipuðu leikmönnum sínum að hafa alls ekki samband við Gylfa á meðan á rannsókn málsins stendur yfir.