Skýrla Fjármálaeftirlitsins um meint misferli stjórnenda Íslandsbanka var opinberuð í morgun. Þar kemur meðal annars fram að bankinn fór ekki að lögum og villti fyrir um fyrir Bankasýslu ríkisins við söluna á 22,5 prósenta hlut í bankanum í mars 2022.
Í skýrslunni eru stjórn bankans sem og Birna Einarsdóttir bankastjóri gagnrýnd fyrir að tryggja ekki að bankinn uppfyllti lagakröfur í málinu og að hafa ekki innleitt innra eftirlit og stjórnarhætti sem skyldi.
Brotin voru að mati Fjármálaeftirlitsins alvarleg og kerfislæg en ekki tilfallandi. Þá kemur enn fremur fram í skýrslunni að bankinn hafi ekki farið að lögum við sölu á hlutabréfum í sjálfum sér og hann hafi villt um fyrir Bankasýslu ríkisins, samkvæmt fjármálaeftirliti Seðlabankans.
Rúv birti rétt í þessu lista yfir brot Íslandsbanka:
- Brot málsaðila varða að hann hafi ekki framkvæmt og skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni hans við söluferlið.
- Þá gerði málsaðili ekki allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna hans í útboðinu.
- Enn fremur skorti á að málsaðili tryggði fullnægjandi aðskilnað milli starfseininga. Jafnframt lúta brot málsaðila að því að hafa ekki hljóðritað og varðveitt símtalsupptökur ásamt því að hafa ekki gripið til allra tiltækra ráðstafana til að tryggja að starfsmenn ættu aðeins í samskiptum við viðskiptavini sem málsaðili gæti varðveitt og afritað.
- Þá beitti málsaðili ekki áhættumiðuðu og fullnægjandi eftirliti með upptökum/skrám um viðskipti og fyrirmæli, en hlítni við reglur um hljóðupptökur hefur verið viðvarandi vandamál hjá 95 málsaðila um langt skeið.
- Málsaðili flokkaði einnig átta viðskiptavini, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta án þess að þeir hafi uppfyllt skilyrði laga þess efnis.
- Þá hafði málsaðili ýmist frumkvæði að og/eða hvatti til að viðskiptavinir óskuðu eftir því að hafa stöðu fagfjárfestis og þar með afsala sér þeirri réttarvernd sem flokkun sem almennur fjárfestir veitir.
- Þá lúta brot málsaðila að því að hafa veitt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022.
- Enn fremur var Bankasýslu ríkisins veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem nokkrir viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni höfðu ekki fengið flokkun sem fagfjárfestar á því tímamarki.
- Þá veitti málsaðili viðskiptavinum sínum rangar og villandi upplýsingar í nokkrum tilvikum um lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.
- Þá lúta brot málsaðila að því að hafa ekki framkvæmt áhættumat í tengslum við aðkomu málsaðila að söluferlinu og því hafi málsaðili ekki haft tryggt kerfi innra eftirlits.
- Loks stuðluðu stjórnarhættir og innra skipulag ekki að varfærinni og skilvirkri stjórnun málsaðila en stjórn og bankastjóri tryggðu ekki að málsaðili uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu m.a. með því að aðhafast ekki með fullnægjandi hætti vegna endurtekinna niðurstaðna innri úttekta um annmarka á fylgni við innri reglur og síðar lagaákvæði um varðveislu á símtalsupptökum.